Fara á efnissvæði

Vatnsflóð á Ólafsfirði 3. október 2021

Náttúruhamfaratrygging Íslands (NTÍ) hefur skoðað aðstæður á Ólafsfirði í kjölfar mikilla rigninga um síðastliðna helgi. Aðfaranótt sunnudagsins 3. október flæddi vatn inn í allnokkur hús í bænum og voru slökkvilið og björgunarsveitir kallaðar út til aðstoðar, m.a. til að dæla vatni úr húsum. Lækur sem rennur út í Ólafsfjarðarvatn við Hornbrekku flæddi yfir bakka sína, með þeim afleiðingum að mikið vatn streymdi inn á íþróttasvæðið og áfram inn í bæinn. NTÍ telur að vatnstjónið, sem af þessu hlaust, sé samspil úrkomunnar sem féll í bænum og flóðsins úr læknum.

Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 700/2019 um NTÍ, telst það vatnsflóð þegar ár og lækir, sem renna að staðaldri, flæða skyndilega yfir bakka sína og valda skemmdum eða eyðileggingu á vátryggðum eignum. Flóð sem aðeins verða vegna úrkomu og leysingavatns teljast hins vegar ekki vatnsflóð sem NTÍ vátryggir gegn, en hægt er að vátryggja fasteignir og lausafé gegn slíkum flóðum hjá vátryggingafélögunum.

Eftir vettvangsferð og yfirferð gagna er það mat NTÍ að megin orsök tjónsins megi rekja til flóðs úr læknum ofan við Hornbrekku og því sé um að ræða vatnsflóð í skilningi 2. gr. reglugerðarinnar.

NTÍ beinir því til eigenda húseigna að tilkynna tjónið rafrænt á nti.is. Þeir sem hafa innbú sitt eða lausafé brunatryggt hjá vátryggingafélagi eru vátryggðir gegn vatnsflóðinu og er þeim bent á að tilkynna tjóni sitt til NTÍ.

Vakin er athygli á því að eigin áhætta vátryggðs er 2% af hverju tjóni, en þó eigi lægri en kr. 400.000 vegna tjóns á húseign og kr. 200.000 vegna tjóns á innbúi og lausafé.

Hægt er að fá nánari upplýsingar um meðferð og afgreiðslu tjónamála á heimasíðu NTÍ eða með því að hringja í síma 575-3300.