Fara á efnissvæði

Meðferð tjónamála

 • Tilkynning frá eiganda

  Meðferð máls hefst þegar tilkynning berst um tjón til NTÍ. Tjón eru tilkynnt með rafrænum hætti í gegnum tilkynningahnapp efst í hægra horni heimasíðu NTÍ. Mikilvægt er að gefa sem réttastar upplýsingar til að tryggja réttláta málsmeðferð. Vísvitandi rangar eða ófullnægjandi upplýsingar frá tilkynnanda, geta leitt til þess að hann glati rétti til tjónabóta af hálfu NTÍ.*

  *Sjá 120. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga

 • Mál sent í tjónamat

  Tjónamat fyrir NTÍ er unnið af óháðum og óvilhöllum matsmönnum sem starfa sjálfstætt. NTÍ hefur gert samninga við fjórar verkfræðistofur sem annast tjónamat fyrir NTÍ, Eflu, Mannvit, Verkís og VSÓ ráðgjöf.

  Áður en tjónamat er framkvæmt hafa matsmenn samband við skráða eigendur eignarinnar (eða umboðsmann vegna tjónsins hafi hann verið skráður) til að bóka tíma í tjónaskoðun. Eigandi eignarinnar eða fulltrúi hans hefur ávallt rétt á að vera viðstaddur tjónaskoðun.

 • Vinnsla matsgerðar

  Eftir að tjónamat hefur verið framkvæmt skrifa matsmenn matsgerð og skila til NTÍ. Algengt er að vinnslutími matsgerða sé 3-5 vikur, en það fer eftir álagi, umfangi einstakra tjónamála og fjölda mála sem eru til meðferðar hverju sinni hjá NTÍ.

 • Niðurstaða kynnt

  Þegar matsgerð hefur borist NTÍ er hún send eigendum eignarinnar til kynningar. Eigendur fá tækifæri til að koma að sjónarmiðum sínum um efni og niðurstöðu matsgerðar áður en ákvörðun er tekin um bótaskyldu og bótafjárhæð. NTÍ fer yfir innsendar ábendingar og metur hvort ástæða sé til endurskoðunar á fyrirliggjandi niðurstöðu í ljósi þeirra.

 • Ákvörðun og uppgjör

  Þegar eigendum hefur gefist kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri tekur NTÍ ákvörðun. Ef ákvörðun felur í sér greiðslu tjónabóta, fer uppgjör fram um leið og allar nauðsynlegar upplýsingar liggja fyrir.
  Ef tjónþoli sættir sig ekki við ákvörðun NTÍ getur hann vísað málinu til úrskurðarnefndar sem starfar á grundvelli 19. gr. laga um NTÍ innan 30 daga frá birtingu ákvörðunar. Sjá nánar...

 • Er hægt að flýta fyrir málinu?

  Þegar kynning á niðurstöðu tjónamats berst eigendum, er gefinn ákveðinn frestur til að koma að sjónarmiðum. Hægt er að flýta fyrir afgreiðslu málsins með staðfestingu frá öllum eigendum um að ekki séu athugasemdir við fyrirliggjandi niðurstöðu. Að öðrum kosti er beðið með framhald málsins þar til frestur til athugasemda er liðinn.
  Rafræn samskipti flýta fyrir afgreiðslu málsins. Ef allir eigendur samþykkja rafræn samskipti og fylla út allar umbeðnar upplýsingar á „mínum síðum“ mun það flýta fyrir afgreiðslu málsins.

 • Get ég fylgst með framvindu málsins?

  Hægt er að fylgjast með framvindu málsins í gegnum „mínar síður“. Þar er hægt að sjá hvar málið er statt hverju sinni þar sem öll útgefin skjöl málsins safnast saman.

 • Hver hefur aðgang að upplýsingum um tjónamat?

  Aðili stjórnsýslumáls (þinglýstur eigandi eignar á tilkynningardegi):
  Aðili máls telst sá sem er málsaðili í virku stjórnsýslumáli. Honum er heimilt að fá öll gögn málsins, önnur en vinnuskjöl. 

  Aðrir sem hafa lögvarða hagsmuni (aðrir þinglýstir eigendur eignarinnar):
  Heimilt er að afhenda öll gögn málsins, önnur en vinnuskjöl, sem innihalda ekki fjárhagslegar og
  persónulegar upplýsingar (s.s. upphæðir í matsgerðum).

  Almenningur hefur rétt til að fá:
  Heimilt er að veita almenningi upplýsingar um hvort tjón hafi verið metið eða hafnað á húseigninni. Hafi tjón verið metið er heimilt að veita upplýsingar um hvort tjón hafi verið tilkynnt til byggingarfulltrúa, liggi þær
  upplýsingar fyrir. 

  Umboðshafar:
  Heimilt er að veita öðrum umboð til að fá upplýsingar um eignir í samræmi við ofangreint. T.d. er algengt að fasteignasalar nálgist upplýsingar um tjón á eignum í umboði eigenda. Slík umboð þurfa að innihalda skýra heimild til að nálgast gögn hjá NTÍ.

   

 • Get ég tilkynnt um viðbótartjón?

  Ef í ljós kemur að um er að ræða frekari skemmdir eftir að ákvörðun hefur verið tekin í málinu, getur eigandi sent inn tilkynningu um viðbótartjón. Það er tilkynnt með sama hætti og nýtt tjón, en tilgreina þarf að um viðbótartjón sé að ræða. Mikilvægt er að tilkynna um viðbótartjón, strax og þess verður vart. Varðandi fyrningarfresti vísast til laga um vátryggingasamninga nr. 30/2004.

Hefðbundinn afgreiðslutími tjónamála er í kringum tveir mánuðir. Hann er þó breytilegur og getur verið bæði lengri og styttri eftir atvikum máls.

* Eigandi getur vísað máli til úrskurðarnefndar á grundvelli 19. gr. laga nr. 55/1992 ef hann unir ekki niðurstöðu.