Fara á efnissvæði

Um NTÍ

NTÍ er opinber stofnun sem hefur það hlutverk að vátryggja helstu verðmæti gegn náttúruhamförum.
NTÍ heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið og byggir starfsemin á sérlögum um Náttúruhamfaratryggingu Íslands nr. 55/1992. Ráðherra setur reglugerð um starfsemina varðandi innheimtu iðgjalda, tjónamat, ákvörðun bóta og eigin áhættu vátryggðs. Stjórnsýslulög gilda um meðferð mála hjá NTÍ. Lög um vátryggingasamninga nr. 30/2004 gilda um almennar forsendur fyrir bótaábyrgð NTÍ, t.d. fyrningarákvæði og vaxtakröfur.
Umfang starfseminnar er mjög mismunandi frá ári til árs þar sem tjónsatburðir ráða miklu um það hversu mikinn mannafla þarf hverju sinni. Að jafnaði starfa 4-5 starfsmenn í fullu starfi hjá stofnuninni, en þegar stærri tjónsatburðir eiga sér stað er verkefnum ýmist úthýst eða fólk ráðið til tímabundinna starfa.

Meðferð bótamála

Eitt af meginmarkmiðum NTÍ er að viðskiptavinir fái áreiðanlega, samræmda og sanngjarna málsmeðferð. Áhersla er lögð á fylgni við lög og reglur í öllu skipulagi stofnunarinnar og samræmi í afgreiðslu og meðferð bótamála. Álag vegna stórra tjónsatburða getur haft áhrif á vinnslutíma tjónamála.

Mat á tjónum er í höndum sérfræðinga sem starfa á grundvelli verktakasamninga fyrir NTÍ. Samningar eru í gildi við fjórar verkfræðistofur á grundvelli útboðs sem framkvæmt var af Ríkiskaupum haustið 2019, Eflu, Mannvit, Verkís og VSÓ ráðgjöf.
Matsmenn eru sjálfstæðir og óháðir í störfum sínum fyrir NTÍ og þurfa að staðfesta að þeir séu óháðir báðum málsaðilum fyrir hvert tjónamat.

Áhættustýring

Þar sem hlutverk NTÍ er að vátryggja gegn náttúruhamförum má gera ráð fyrir miklum sveiflum í starfseminni, bæði í umfangi verkefna og útgjöldum vegna greiðslu tjónbóta. Meginþættir í starfsemi NTÍ snúa að meðferð tjónamála, tryggingafræðilegri áhættu og stýringu eignasafns. Við áhættustýringu er lögð áhersla á formfestu, varfærni og áreiðanleika. Áhættustýringarstefnu NTÍ má finna hér.

Viðbragðsáætlun í náttúruhamförum er í gildi hjá NTÍ. Hún hefur það að markmiði að stofnunin sé í stakk búin til að takast á við afgreiðslu tjónamála í kjölfar stórra tjónsatburða. Áætlunin byggir á sviðsmyndagreiningum og líkindafræðilegum útreikningum á líklegri stærð og umfangi framtíðartjónsatburða.

Einn af mikilvægum þáttum í áhættustýringu NTÍ felur í sér kaup á endurtryggingavernd á erlendum mörkuðum sem m.a. er ætlað að verja gjaldþol stofnunarinnar. Endurtryggingasamningar eru að jafnaði gerðir við u.þ.b. 25 erlenda aðila ár hvert. Mat á tryggingafræðilegri áhættu er endurskoðað reglulega og byggir á faglegum og viðurkenndum aðferðum.

NTÍ hefur sjálfstæðan fjárhag og ávaxtar eignir sínar á grundvelli fjárfestingastefnu sem stjórn NTÍ setur. Í fjárfestingastefnu NTÍ er áhersla lögð á eignadreifingu og annast fjórir aðilar eignastýringu safnsins. Eignir eru bæði í innlendum og erlendum eignum og megináhersla lögð á áhættulitlar fjárfestingar þar sem öryggi er haft að leiðarljósi umfram ávöxtun eigna.

Grunur um misferli

NTÍ leggur áherslu á vandað verklag og gegnsæi ákvarðana. Í því skyni hefur verið settur upp hnappur sem ætlaður er þeim sem hafa ábendingar um misferli innan NTÍ eða hjá þeim sem starfa fyrir stofnunina. Dæmi um misferli getur verið að ekki sé að fullu starfað í samræmi við lög og reglur, verklagsreglur og/eða almennt siðferði.

Stjórnarhættir

Stjórnarháttayfirlýsing er gefin út af stjórn ár hvert. Þar má sjá helstu áherslur stjórnar í starfseminni og stutt yfirlit yfir helstu þætti starfseminnar. Núgildandi stjórnarháttayfirlýsingu má finna kaflaskipta hér að neðan. 

Yfirlýsinging er staðfest af stjórn Náttúruhamfaratryggingar Íslands 10. mars 2022

  • Inngangur

    Náttúruhamfaratrygging Íslands (NTÍ) starfar skv. sérlögum nr. 55/1992 um Náttúruhamfaratryggingu Íslands og reglugerð nr. 700/2019 um Náttúruhamfaratryggingu Íslands með áorðnum breytingum. Starfsstöð NTÍ er í Hlíðasmára 14, Kópavogi.

    NTÍ starfar á sviði skaðatrygginga samkvæmt lögum nr. 55/1992 og lögum um vátryggingastarfsemi nr. 100/2016. Í samræmi við lög um endurskoðendur nr. 79/2008 eru vátryggingafélög skilgreind sem einingar tengdar almannahagsmunum og er sérstaklega kveðið á um hlutverk endurskoðunarnefnda í slíkum einingum í lögum um ársreikninga nr. 3/2006.

    Samkvæmt útgefnum ársreikningi voru iðgjöld ársins 2021 í árslok kr. 3.706.021.000. 
    Starfsreglur stjórnar eru aðgengilegar á vef NTÍ. Við gerð stjórnarháttaryfirlýsingar þessarar var stuðst við nýjustu útgáfu leiðbeininga Viðskiptaráðs Íslands, Nasdaq Iceland hf. og Samtaka atvinnulífsins sem tóku gildi 1. júlí 2021.

  • Starfsemin

    Náttúruhamfaratrygging er lögbundin trygging sem bætir beint tjón á vátryggðum eignum af völdum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða. Náttúruhamfaratryggingin fylgir brunatryggingu húseigna sem er lögbundin skyldutrygging. Sé lausafé tryggt gegn bruna, hvort sem er með sérstakri lausafjártryggingu eða samsettri lausafjártryggingu, er innifelur bætur af völdum eldsvoða og flokkast undir eignatryggingar, þá fylgir náttúruhamfaratrygging slíkri vátryggingu. Vátryggingaupphæð náttúruhamfaratryggingar eru sú sama og viðkomandi brunatryggingar en tryggingarskilmálar eru aðrir.

    Einnig er skylt að náttúruhamfaratryggja mannvirki, s.s. brýr, hafnir, skíðalyftur og ýmis veitumannvirki í opinberri eigu þótt þau séu ekki brunatryggð. Þegar mannvirki eru náttúruhamfaratryggð hjá NTÍ er átt við frumtryggingastarfsemi á sviði skaðatrygginga. Heimilt er að vátryggja mannvirkin annars staðar en hjá NTÍ.

    Ágreiningi um hvort bótaskylt tjón hafi orðið eða um fjárhæð vátryggingarbóta má skjóta til sérskipaðrar úrskurðarnefndar. Formaður úrskurðarnefndar er Helgi Birgisson, lögmaður hjá Forum lögmönnum, tilnefndur af Hæstarétti Íslands. Aðrir nefndarmenn eru Sólveig Þorvaldsdóttir, byggingaverkfræðingur, tilnefnd af Háskóla Íslands, Guðrún Ólafsdóttir, jarðskjálftaverkfræðingur, skipuð af ráðherra og Stefán Már Stefánsson, prófessor emeritus, skipaður af ráðherra. Skipunartími nefndarinnar er til þriggja ára frá 1. mars 2022 til 1. mars 2025.

  • Samskipti ráðuneytis og stjórnar

    NTÍ sendir fjármála- og efnahagsráðuneyti ársreikning um leið og hann liggur fyrir og ársskýrslu NTÍ í beinu framhaldi af ársfundi. Önnur samskipti eru í tengslum við lög og reglur sem um NTÍ gilda og úrskurðarnefnd um Náttúruhamfaratryggingu Íslands. Forstjóri leggur áherslu á að upplýsa ráðuneytið um öll mál sem geta talist mikilvæg og/eða þarf að hafa í huga varðandi starfsumhverfi NTÍ.

  • Brot á lögum og reglum

    NTÍ hefur enga dóma hlotið fyrir refsiverðan verknað skv. almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um vátryggingafélög eða löggjöf um bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með vátryggingastarfsemi.

  • Innra eftirlit og áhættustýring

    NTÍ lýtur eftirliti Seðlabanka Íslands og hefur komið á samhæfðri áhættustýringu sem nær til allra rekstrarþátta NTÍ. Fram til ársins 2017 voru í gildi leiðbeinandi tilmæli FME nr. 3/2014 um áhættustýringu og starfssvið tryggingastærðfræðings hjá vátryggingafélögum sem áhættustýring NTÍ byggði á, en þau hafa nú verið felld úr gildi. Þar sem FME mun ekki viðhalda tilmælunum var ákveðið að líta til COSO ERM 2017 við endurskoðun samhæfðrar áhættustýringar frá árinu 2017. Núverandi áhættustefna byggir því á nýjustu leiðbeiningum COSO sem stendur fyrir Commitee of Sponsoring Organizations of the Treadway Commission.

    Stjórnkerfi og skipulag NTÍ er skráð í gæðakerfi hennar. Leiðbeiningar fyrir starfsmenn stofnunarinnar miða að því að hver og einn beri ábyrgð á gæðum vinnu sinnar, þjónustu NTÍ og upplýsingaöryggi. Innra eftirlit er innbyggt í verklagsreglur NTÍ og eru innri úttektir og áhættugreiningar framkvæmdar reglulega. Sviðsstjóri þjónustusviðs kynnir niðurstöðu gæða- og öryggismála, innri úttekta og stöðu úrbótaverkefna árlega í kjölfar innri endurskoðunar og annarra úttekta fyrir stjórn og endurskoðunarnefnd.

    NTÍ leggur áherslu á skýra verkaskiptingu og ábyrgð. Mánaðarleg skýrslugjöf um eignastýringarsafn er mikilvægur þáttur í upplýsingagjöf til stjórnar NTÍ. Að auki er ítarleg skýrslugjöf um safnið ársþriðjungslega og árlega er eigið áhættu- og gjaldþolsmat framkvæmt samhliða ársskýrslu um árangur eignasafnsins. Forstjóri fundar að jafnaði nokkrum sinnum á ári með fjárstýringaraðilum, um hvernig stýringu og eftirliti með fjárfestingum er háttað og til þess að leggja mat á hvort það sé fullnægjandi.

    Árleg skýrsla um áhættustýringu og aðrar reglulegar úttektir miða að því að tryggja gagnsæi í starfseminni og auðvelda NTÍ að uppgötva og leiðrétta hugsanlegar skekkjur, fylgjast með frávikum og sveiflum í starfseminni og gefa svigrúm til að bregðast við ef áhættuþættir eða breytingar í rekstrarumhverfi gefa tilefni til.
    Tjónaskuld og endurtryggingavernd NTÍ eru metnar með reglulegum hætti og þess gætt að þær séu í samræmi við þarfir stofnunarinnar og skuldbindingar hennar.

    Samningur um ytri endurskoðun var gerður við Deloitte haustið 2018 til fimm ára fyrir tímabilið 2018-2022 á grundvelli útboðs með milligöngu Ríkisendurskoðunar. PwC hefur annast innri endurskoðun undanfarin ár, en samningur um þá þjónustu er útrunninn.

  • Hlutverk, framtíðarsýn og vegvísar

    Unnið er að stöðugum umbótum í starfsemi Náttúruhamfaratryggingar Íslands og var nýtt skipurit var samþykkt af stjórn NTÍ í mars 2021. Markmið með breytingum á skipulagi NTÍ var að tryggja skýrt umboð og farsæla stjórnun stofnunarinnar jafnt í daglegu starfi sem og í gegnum stóra tjónsatburði.

    Stjórn og starfsfólk hafa sameiginlega sett siðareglur fyrir NTÍ sem ætlað er að vera nokkurs konar vegvísir fyrir þá sem starfa í þágu NTÍ. Siðareglurnar eru leiðarljós stjórnar og starfsmanna um þá siðferðislegu ábyrgð sem allir hlutaðeigandi hafa sammælst um að fylgja í orði og verki. Reglurnar byggja á gildum sem skulu vera ráðandi í öllum ákvörðun NTÍ, þær eru sanngirni, áreiðanleiki, samvinna og frumkvæði. Siðareglurnar voru síðast endurskoðaðar í mars 2022.

    Ný mannauðsstefna var samþykkt í mars 2022, en hún byggir á fimm meginþáttum, vinnustaðamenningu, stjórnun og þróun, starfssambandi, starfsþróun og heilsu og líðan.

    Stjórn hefur sett fram framtíðarsýn í einstökum málaflokkum stefnuskjölum sem eru hluti af gæðakerfi NTÍ. Sett hafa verið markmið og leiðir með öllum stefnum stjórnar til að tryggja innleiðingu þeirra og fylgni við þær.

  • Reglur, stefnur og samfélagsleg ábyrgð

    Starfsreglur stjórnar eru að jafnaði endurskoðaðar árlega og er 12. útgáfa þeirra endurskoðuð 16. apríl 2021. Reglurnar kveða meðal annars á um hæfi stjórnarmanna, verkaskiptingu og skyldur stjórnarmanna. Reglurnar ná einnig yfir hlutverk og verksvið stjórnar og forstjóra, fyrirsvar stjórnar NTÍ, upplýsingagjöf til stjórnar, fundarsköp, fundargerðir og ákvörðunarvald stjórnar. Auk stefnumótunarhlutverksins hefur stjórn eftirlit með því að starfsemi NTÍ sé í samræmi við lög og reglur og hefur eftirlit með bókhaldi og ráðstöfun fjármuna NTÍ. Stjórnin hefur eftirlit með virkni áhættustýringar, árangri og skilvirkni innra starfs NTÍ og stuðlar að því að markmið NTÍ náist.

    Áhættustýringarstefna er í stöðugri endurskoðun og eru þrír stærstu áhættuþættir í starfseminni skilgreindir sem; meðferð tjónamála, stýring eignasafns og tryggingafræðileg áhætta. Áhættustýringarstefnan er í anda samhæfðrar áhættustýringar COSO 2017, þar sem m.a. er fjallað um áhættumenningu, stefnumótun, áhættu við framkvæmd verkefna, upplýsingar um áhættu og skýrslugerð ásamt kröfum um innra eftirlit og áhættumælingar.

    Upplýsingaöryggisstefna var útgefin í 8. útgáfu, 28. febrúar 2022 og byggir hún á leiðbeinandi tilmælum FME nr. 1/2019 vegna áhættu við rekstur upplýsingakerfa eftirlitsskyldra aðila.

    Stjórn samþykkti nýja umhverfis- og loftslagsstefnu í október 2021, en henni er m.a. ætlað að tryggja fylgni við „Græn skref í ríkisrekstri“ og styðja við áherslur ríkisins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Ekki er í gildi sérstök stefna NTÍ varðandi samfélagslega ábyrgð en í skipulagi og umgjörð starfseminnar eru í gildi reglur sem ætlað er að tryggja rekstrarsamfellu og samfélagslegt öryggi þegar til náttúruhamfara kemur. Birtist þetta m.a. í reglum um fjárfestingarstarfsemi, fjárfestingarstefnu og viðbragðsáætlun.

    Stjórn hefur ekki sett sér stefnu um fjölbreytileika í tengslum við stjórn. Stjórn gengur út frá því að þeir sem skipa í stjórnina fari eftir gildandi lögum á hverjum tíma.

    Stjórn heldur sameiginlega fundi með innri og ytri endurskoðendum og endurskoðunarnefnd um innra eftirlit og áhættustýringu. Bæði stjórn og endurskoðunarnefnd funda a.m.k. einu sinni á ári án viðveru forstjóra NTÍ. Mat stjórnar á eigin störfum fór síðast fram í janúar 2022 og taldi stjórn sig hafa uppfyllt skyldur sínar samkvæmt lögum og starfsreglum og að starf hennar hefði skilað tilætluðum árangri. Í árangursmati stjórnar var áhersla lögð á mat á skipulag og framkvæmd stjórnarfunda, upplýsingagjöf til stjórnar, hlutverk, ábyrgð og valdmörk stjórnar og forstjóra, virkni stjórnarmanna og mat á störfum stjórnarformanns og forstjóra.
    Árlega skilar endurskoðunarnefnd skýrslu til stjórnar um störf sín og leggur mat á eigin störf skv. góðum starfsháttum endurskoðunarnefnda.

  • Persónuvernd

    Stjórn hefur sett sér persónuverndarstefnu sem birt er á heimasíðu NTÍ. Persónuvernd er hluti af áhættumati við alla samningagerð á vegum NTÍ og eru vinnslusamningar gerðir alls staðar þar sem unnið er með persónuupplýsingar. Mikil áhersla er lögð á öryggi persónuupplýsinga í upplýsingakerfum. PwC sinnir hlutverki persónuverndarfulltrúa fyrir hönd NTÍ.

  • Fjárvarsla og eignastýring

    Mikil áhersla er lögð á eignadreifingu í fjárfestingastefnu NTÍ. Samningar eru við Arion banka, Íslandssjóði, Íslensk verðbréf og Landsbankann um eignastýringu. Eignir eru bæði í innlendum og erlendum eignum og megináhersla lögð á áhættulitlar fjárfestingar þar sem öryggi er haft að leiðarljósi umfram ávöxtun eigna. Analytica hefur eftirlit með eignastýrendum og tekur saman mánaðarleg yfirlit um stöðu safnsins og fylgni við fjárfestingastefnu. Stjórn fær mánaðarlega samantekt um stöðu eignasafnsins til kynningar. Ársþriðjungslega er gerð ítarleg greiningarskýrsla og samanburður á frammistöðu eignastýrenda sem lögð er fyrir stjórn til umfjöllunar. 

  • Endurtryggingar

    Endurtryggingasamningar eru gerðir í þeim tilgangi að draga úr áhættu stofnunarinnar. Stofnunin hefur keypt erlendar endurtryggingar fyrir árið 2022 sem byggja á tveimur samningum. Annar samningurinn hefur tvenns konar virkni. Annars vegar fyrir stakan atburð, allt að 25 milljörðum króna, með eigin áhættu að fjárhæð 10 milljörðum króna. Einnig er uppsöfnunarákvæði í samningnum, þar sem nokkrir atburðir af ólíkum tegundum geta talið upp í 10 milljarða kr. eigin áhættu, hámark 25 milljarða króna. Hinn samningurinn veitir vernd gegn mjög stórum einstökum atburðum þar sem endurtryggjendur greiða allt að 15 milljarða króna umfram það 25 milljarða tjón sem fyrri samningurinn tekur til ef um er að ræða stakan atburð. Að jafnaði eru í kringum 25 endurtryggjendur á samningum NTÍ um endurtryggingarvernd vegna áhættu í stóratburðum. Frá árinu 2014 hefur Aon Benfield séð um miðlun endurtrygginga. Endurnýjun endurtryggingasamninga fer fram í lok hvers árs fyrir komandi almanaksár.

  • Stjórn

    Stjórn NTÍ er skipuð fimm einstaklingum og er skipunartími frá 1. júlí 2019 – 30. júní 2023. Þrír eru kosnir af Alþingi. Vátryggingafélög sem innheimta iðgjöld (SFF) velja einn stjórnarmann en fjármála- og efnahagsráðherra skipar formann. Stjórnarmenn eru skipaðir til fjögurra ára í senn. Stjórnina skipa: Sigurður Kári Kristjánsson, stjórnarformaður, Lína Björg Tryggvadóttir, varaformaður, Jóna Björk Guðnadóttir, Ragnar Þorgeirsson og Steinar Harðarson.


    Varamenn í stjórn eru Sóley Ragnarsdóttir, Margrét Arnheiður Jónsdóttir, Sigríður Gísladóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Tómas Ellert Jónsson.


    Stjórn Náttúruhamfaratryggingar Íslands telur að ákvæðum leiðbeininga um stjórnarhætti nr. 2.3.2 er varðar óhæði stjórnarmanna sé fullnægt. Stjórnarmenn eru allir óháðir stofnuninni og daglegum stjórnanda hennar.

    Það er hefð að bjóða öllum varamönnum að sitja einn stjórnarfund á ári sem áheyrnarfulltrúar, en það er jafnan gert á stjórnarfundi sem haldinn er að morgni ársfundardags í maí ár hvert. Tilgangur með boðun varamanna á árlegan fund er að stuðla að viðhaldi þekkingar á starfseminni og til að tryggja að þeir þekki til þeirra vinnubragða sem viðhöfð eru í tengslum við stjórnarfundi. Stjórn Náttúruhamfaratryggingar Íslands fundaði 12 sinnum á árinu 2021 og var varamaður boðaður til fundar í einu tilviki vegna fjarveru aðalmanns. Á árinu tóku fjármál og eignastýringaráherslur um 33% af starfstíma stjórnar, stefnumótun og gæðamál um 24%, meðferð tjónamála 15%, áhættustýring og eftirlitsþættir í starfseminni 12% og tryggingafræðileg áhætta og endurtryggingar 6%. Aðrir þættir í störfum stjórnar námu 10% af starfstíma stjórnar.

    Stjórnina skipa:

    • Sigurður Kári Kristjánsson, fæddur 9. maí 1973 til heimilis í Reykjavík. Hann hefur gegnt hlutverki stjórnarformanns Náttúruhamfaratryggingar Íslands frá árinu 2015 og er skipaður af ráðherra. Hann hlaut málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi frá 1999 og fyrir Hæstarétti Íslands árið 2017. Sigurður Kári var lögmaður á lögmannsstofunni Lex frá árinu 1998 til 2003, en það ár var hann kjörinn til setu á Alþingi sem þingmaður Reykvíkinga. Frá árinu 2011 hefur Sigurður Kári verið sjálfstætt starfandi lögmaður og rekið lögmannsstofuna Lögmenn Lækjargötu í félagi við aðra. Sigurður Kári hefur setið í fjölmörgum stjórnum og nefndum á vegum stjórnvalda.
    • Lína Björg Tryggvadóttir, fædd 17. júní 1971 til heimilis í Þorlákshöfn. Lína Björg var fyrst skipuð í stjórn NTÍ af Alþingi árið 2011 og hefur verið varaformaður stjórnar frá árinu 2015. Lína Björg lauk B.S. prófi í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2006 með áherslu á viðskiptalögfræði og stjórnun. Hún hun lauk Diploma í opinberri stjórnsýslu haustið 2020 og er á lokasprettinum i að ljúka M.sc. í Sjávarbyggðafræði frá HA. Lína Björg vinnur sem skrifstofustjóri á skrifstofu borgarlögmanns. Hún var áður verkefnastjóri hjá Vestfjarðastofu og hafði þar yfirumsjón með ýmsum verkefnum er lúta að uppbyggingu sveitarfélaganna níu. Hún var áður útibússtjóri Mótus á Ísafirði (2006-2013) . Hún sat í mörg ár í skipulagsnefnd Ísafjarðarbæjar og var áður varaformaður umhverfisnefndar. Hún sat einnig í bæjarstjórn Ísafjarðar í fjögur ár. Einnig hefur hún unnið að viðskipta –og uppbyggingarverkefnum bæði á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar (Nordregio) og með öðrum sveitarfélögum á Íslandi.
    • Jóna Björk Guðnadóttir, fædd 31. mars 1967 til heimilis í Reykjavík. Hún var skipuð í stjórn NTÍ eftir tilnefningu frá SFF árið 2019 en var varamaður í stjórn frá 2015-2019. Jóna Björk lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1994 og starfar sem yfirlögfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF), en hún hefur starfað hjá SFF síðan 2008. Hún starfaði sem regluvörður Sparisjóðabanka Íslands frá 2006-2008. Frá 2001-2005 starfaði hún sem deildarstjóri í fjármálaráðuneytinu, frá 1999 – 2000 starfaði hún sem framkvæmdastjóri Starfrækslunefndar gagnagrunns á heilbrigðissviði. Að loknu lagaprófi starfaði hún sem fulltrúi sýslumannsins í Keflavík. Jóna Björk hefur setið í fjölmörgum stjórnum og nefndum á vegum stjórnvalda og situr í laganefnd Evrópsku bankasamtakanna.
    • Ragnar Þorgeirsson, fæddur 23. janúar 1966, til heimilis í Reykjavík. Ragnar var fyrst skipaður í stjórn NTÍ af Alþingi árið 2015, auk þess sem hann er fulltrúi stjórnar í endurskoðunarnefnd. Ragnar lauk B.A. prófi í opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum í Álaborg í Danmörku 1997 og meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum, með áherslu á „Private-Public-Partnership“, frá sama skóla árið 2000. Ragnar var stjórnarmaður, formaður endurskoðunarnefndar og síðar sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis ses. og útibússtjóri á Þórshöfn eftir sameiningu sparisjóða (2011-2015). Ragnar var framkvæmdastjóri rekstrar, hjá endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækinu PricewaterhouseCoopers ehf. (2005-2011). Einnig hefur hann sinnt lengri og skemmri viðskiptaþróunarverkefnum fyrir ýmis fyrirtæki. Ragnar er löggiltur fasteignasali og starfar á Heimili fasteignasölu auk þess sem hann stundar smábátaútgerð.
    • Steinar Harðarson, fæddur 8. apríl 1944, til heimilis í Reykjavík. Hann var í stjórn frá 2011-2015, varamaður frá 2015-2019 og var nú aftur skipaður í stjórn árið 2019. Steinar lauk sveinsprófi í bifreiðasmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík 1964. Hann er véltæknifræðingur frá Polhems Tekniska skola, Gautaborg 1977. Hann starfaði sem svæðisstjóri hjá Vinnueftirliti ríkisins á árunum 1999-2014 og var forstöðumaður framkvæmdasviðs Þórshafnarhrepps 1993-1999. Hefur tekið þátt í alþjóðlegum verkefnum fyrir Vinnueftirlitið og setið í starfshópum á vegum þess. Steinar hefur setið í vinnuhópum um gerð reglugerða á vinnuverndarsviði Félagsmálaráðuneytisins. Steinar hefur viðurkenningu Vinnueftirlitsins sem þjónustuaðili í vinnuvernd og starfar nú sem sjálfstæður vinnuverndarráðgjafi hjá Vinnuvernd og forvörnum ehf.
  • Varastjórn
    • Sóley Ragnarsdóttir, fædd 22. júlí 1965 til heimilis í Reykjavík. Hún er varamaður Sigurðar Kára Kristjánssonar. Sóley er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur starfað í Fjármála- og efnahagsráðuneytinu frá árinu 2006 og starfar nú á skrifstofu fjármálamarkaðar þar sem hún sér meðal annars um málefni vátryggingamarkaðar. Sóley hefur haft aðkomu að allri lagasetningu á vátryggingamarkaði frá árinu 2014. Sóley hefur verið varamaður í úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum frá árinu 2015. Áður starfaði Sóley hjá Þjóðskrá, Sýslumanninum í Reykjavík og á lögmannsstofu.
    • Margrét Arnheiður Jónsdóttir, fædd 11. september 1978, til heimilis í Hafnarfirði. Hún er varamaður Jónu Bjarkar Guðnadóttur. Margrét Arnheiður útskrifaðist sem Cand. Jur frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2007 og lauk prófi í verðbréfamiðlun árið 2013. Margrét hefur reynslu af vátryggingastarfsemi og regluvörslu skv. lögum um verðbréfaviðskipti en hún starfaði sem lögfræðingur á skrifstofu forstjóra VÍS og við regluvörslu fyrir félagið frá árinu 2011 til ársins 2018. Margrét starfaði auk þess við lögfræðistörf í stjórnsýslunni frá útskrift og þar til hún hóf störf fyrir VÍS 2011.
    • Tómas Ellert Tómasson, fæddur 20. nóvember 1970, til heimilis á Selfossi. Hann er varamaður Steinars Harðarsonar. Tómas Ellert útskrifaðist sem byggingatæknifræðingur frá Tækniskóla Íslands (HR) árið 2000 og byggingarverkfræðingur frá University of Washington, Seattle árið 2002. Tómas Ellert hefur sinnt verkefnastjórnunar-, ráðgjafa- og hönnunarstörfum um árabil og starfar nú fyrir SG-hús ehf. og Eðalbyggingar ehf. á Selfossi. Tómas Ellert er bæjarfulltrúi, formaður bæjarráðs og formaður eigna- og veitunefndar í Svf. Árborg ásamt því að gegna ýmsum trúnaðarstörfum fyrir hönd sveitarfélagsins.
    • Silja Dögg Gunnarsdóttir, fædd 16. desember 1973 til heimilis í Reykjanesbæ. Hún er varamaður Ragnars Þorgeirssonar. Silja er með MIB í alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum á Bifröst, auk þess sem hún er með BA í sagnfræði frá HÍ. Silja var alþingismaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi frá 2013-2021. Á árunum 2008-2013 starfaði hún sem skjalastjóri og aðstoðarmaður framkvæmdastjórnar hjá HS Orku.
    • Sigríður Gísladóttir, fædd 24. ágúst 1981 til heimilis á Ísafirði. Hún er varamaður Línu Bjargar Tryggvadóttur. Sigríður er dýralæknir (Cand.med.vet) frá Norges Veterinærhøgskole. Frá árinu 2012 til 2021 starfaði Sigríður sem sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun en er nú dýralæknir á sviði fisksjúkdóma hjá Bláum akri ehf. Hún situr í hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar og í stjórn Náttúrustofu Vestfjarða til 2022.
  • Starfsfólk

    Forstjóri NTÍ frá árinu 2010 er Hulda Ragnheiður Árnadóttir, fædd árið 1971. Hún ber ábyrgð á daglegum rekstri stofnunarinnar. Hulda Ragnheiður lauk meistaragráðu í bankastjórnun, fjármálum og alþjóðaviðskiptum árið 2008. Hún lauk B.Sc. í viðskiptafræði árið 2004 og Diploma í opinberri stjórnsýslu og stjórnun árið 2001. Hulda hefur einnig Diploma í góðum stjórnarháttum frá Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands. Hulda starfaði áður við innri endurskoðun í Kaupþingi/Arion banka, tímabundið í afleysingum sem bæjarstjóri Blönduóssbæjar og þar áður framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs Húsavíkurbæjar (nú Norðurþings). Áður hafði Hulda starfað bæði sem bóndi og kjólameistari, en hún útskrifaðist með sveinspróf í kjólasaum frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1991.
    Fastir starfsmenn eru fimm auk forstjóra; Jóhann Árni Helgason, sviðsstjóri þjónustusviðs, Jónína Pálsdóttir, bókari og þjónustufulltrúi, Jóhanna María Kristinsdóttir gæða- og þjónustufulltrúi og Vignir Jónsson sérfræðingur á vátryggingasviði.

  • Endurskoðunarnefnd

    Endurskoðunarnefnd starfar eftir starfsreglum á grundvelli IX. kafla A. í lögum um ársreikninga nr. 3/2006. Í 108. gr. er kveðið á um skyldu eininga tengdum almannahagsmunum að starfrækja endurskoðunarnefnd. Endurskoðunarnefnd NTÍ er skipuð þremur nefndarmönnum sem kosnir eru af stjórn NTÍ. Hlutverk nefndarinnar er að hafa eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila, áhættustýringu og virkni innra eftirlits. Hún skal tryggja gæði ársreikninga og annarra fjárhagsupplýsinga stofnunarinnar og óhæði endurskoðenda þess. Endurskoðunarnefnd skipa, Sigurður Þórðarson, formaður. Auk hans eiga sæti í nefndinni Steinunn Guðjónsdóttir og Ragnar Þorgeirsson sem er einnig stjórnarmaður. Ekki eru skipaðir varamenn í endurskoðunarnefnd og því eru fundir almennt ekki haldnir nema allir nefndarmenn geti mætt til fundarins. Endurskoðunarnefnd fundar að jafnaði mánaðarlega, fyrir utan tvo mánuði yfir sumartímann. Nefndin fundaði 10 sinnum á árinu 2021.

    • Sigurður Þórðarson, fæddur 9. desember 1941, til heimilis í Hafnarfirði, fyrrverandi ríkisendurskoðandi. Hann hefur verið formaður endurskoðunarnefndar NTÍ frá árinu 2011. Hann var skipaður ríkisendurskoðandi 1992 og gegndi því starfi til 2008. Sigurður varð löggildur endurskoðandi árið 1982. Hóf störf í Ríkisendurskoðun 1973 til ársins 1982 er hann hóf störf í fjármálaráðuneytinu þar sem hann starfaði þar til hann var skipaður vararíkisendurskoðandi árið 1987. Hann hefur setið í fjölmörgum stjórnum og nefndum á vegum hins opinbera og Hafnarfjarðarbæjar. Frá því að hann lét af störfum sem ríkisendurskoðandi hefur hann verið formaður nokkurra endurskoðunarnefnda hjá stofnunum hins opinbera, lífeyrissjóða og fyrirtækja. Sigurður var skipaður í endurskoðunarnefnd Norræna Fjárfestingarbankans (NIB) 2014 til 4ja ára þar af sem formaður síðustu tvö árin. Þá hefur hann setið í Endurskoðunarráði Viðreisnarsjóðs Evrópuráðsins í París í 3 ár og Evrópuráðsins í Strasbourg í 6 ár. Sigurður var kjörinn endurskoðandi EUROSAI 2002 (Samtaka ríkisendurskoðenda í Evrópu) til fjögurra ára og einnig sat hann í varastjórn og um tíma í stjórn NIB í Helsinki á árabilinu 2009 til 2013.
    • Steinunn Guðjónsdóttir, fædd árið 1963, til heimilis í Reykjavík hefur starfað hjá Sjóvá frá árinu 1999. Samhliða starfi sínu hjá Sjóvá var hún fyrstu árin einnig með eigin rekstur sem tryggingastærðfræðingur nokkurra lífeyrissjóða. Síðustu ár hefur hún verið í fullu starfi hjá Sjóvá og gegnir þar hlutverki forstöðumanns trygginga- og tölfræðigreiningar. Steinunn gegndi áður starfi forstöðumanns áhættustýringar Sjóvár og stýrði innleiðingu Solvency II hjá Sjóvá. Steinunn lauk prófi í stærðfræði frá Háskólanum í Groningen í Hollandi árið 1988 og vann fram til ársins 1995 sem stærðfræðikennari við Menntaskólann við Sund, samhliða uppgjörs- og úrskurðarverkefnum fyrir lífeyrissjóði. Hún lauk prófi í tryggingastærðfræði frá Háskólanum í Amsterdam árið 1999.
    • Yfirlit um starfsreynslu og bakgrunn Ragnars Þorgeirssonar er að finna undir umfjöllun um stjórn NTÍ en hann tók sæti í endurskoðunarnefnd NTÍ árið 2015.
  • Frávik frá leiðbeiningum

    Leiðbeiningar Viðskiptaráðs Íslands, Nasdaq Iceland hf. og Samtaka atvinnulífsins taka mið af lögum um hlutafélög og því eiga þau ekki við um starfsemi NTÍ. Engu að síður eru þær hafðar til hliðsjónar við gerð stjórnarháttayfirlýsingarinnar. Í leiðbeiningunum er mælst til þess að tiltaka öll frávik frá leiðbeiningunum og eru það gert í eftirfarandi upptalningu.

    1. kafli.
      • Í ljósi þess að NTÍ er ekki hlutafélag og að stjórn er ekki kosin á aðalfundi á þessi kafli ekki við um starfsemi NTÍ.
    2. kafli.
      • Ákvæði 2.2.1 er ekki fylgt í ljósi þess að skipun stjórnar fer skv. lögum nr. 55/1992 og stjórn hefur ekki ákvörðunarvald um samsetningu stjórnar.
      • Ákvæði 2.3.3 – 2.3.5 og ákveðnir punktar í 2.3.6 eiga ekki við um NTÍ þar sem NTÍ er ekki hlutafélag.
      • Stjórn leggur ekki árlega mat á stærð og samsetningu stjórnar skv. ákvæði 2.6.2 þar sem það er á valdi Alþingis, ráðuneytis og SFF að skipa stjórnarmenn.
      • Kafli 2.7 um starfskjarastefnu á ekki við um NTÍ enda ber NTÍ ekki lagaleg skylda til að hafa slíka stefnu.
      • Stjórn hefur ekki sett sér stefnu um sjálfbærni, fjölbreytileika og siðferði skv. kafla 2.9.
      • Kafli 2.10 um samskipti við hluthafa á ekki við þar sem NTÍ er að fullu í eigu íslenska ríkisins.
    3. kafli.
      • Engin frávik.
    4. kafli.
      • Engin frávik.
    5. kafli.
      • Engar undirnefndir stjórnar eru starfandi hjá NTÍ fyrir utan endurskoðunarnefnd sem er lögbundin og starfar samkvæmt þeim ákvæðum sem um hana gilda.
      • Engin starfskjaranefnd skv.ákvæði 5.4 starfar hjá NTÍ enda er NTÍ ekki hlutafélag.
    6. kafli.
      • Töluliður 7 í ákvæði 6.1.2 á ekki við um starfsemi NTÍ þar sem engin tilnefningarnefnd er starfandi í ljósi þess að NTÍ er ekki hlutafélag.
      • Kafli 6.1.3 á ekki við um NTÍ þar sem NTÍ er ekki hluti af samstæðu.
      • Töluliðir 2, 4, 5, 6, 7,og 8 ákvæðis 6.2.2 eiga ekki við um NTÍ þar sem NTÍ er ekki hlutafélag.
  • Niðurlag

    Stjórnarháttayfirlýsing þessi hefur verið sett saman af stjórn og forstjóra NTÍ eftir bestu vitund. Henni er ætlað að veita greinargóðar upplýsingar um stjórnarhætti stofnunarinnar til viðskiptavina, eftirlitsaðila, eiganda og annarra hlutaðeigandi.

Frekari upplýsingar um skipulag NTÍ

Frekari upplýsingar um skipulag og verklag er að finna gæðaskjölum úr gæðakerfi NTÍ sem hægt er að nálgast hér https://www.nti.is/um-nti/utgefid-efni/