Saga NTÍ
Náttúruhamfaratrygging Íslands tók til starfa 1. september 1975 skv. lögum nr. 52/1975, en þá hét stofnunin Viðlagatrygging Íslands. Þann 1. júlí 2018 tók gildi breyting á lögum nr. 55/1992 þar sem nafni stofnunarinnar var breytt í Náttúruhamfaratrygging Íslands (NTÍ). Umræða hafði staðið í talsvert langan tíma um mikilvægi þess að stofna einhvers konar sjóð eða vátryggingarfélag til að standa undir kostnaði sem kynni að verða af völdum meiri háttar náttúruhamfara hérlendis. Eldgosið í Heimaey 23. janúar 1973 og mannskætt snjóflóð sem varð á Neskaupstað 20. desember 1974, urðu til þess að koma þessari hugmynd til framkvæmda. Strax þann 30. desember 1974 skipaði tryggingamálaráðherra nefnd sem skipuð var Ásgeiri Ólafssyni þáverandi forstjóra Brunabótafélags Íslands, Benedikt Sigurjónssyni, hæstaréttardómara og Bjarni Þórðarsyni, tryggingastærðfræðingi til að "gera tillögur um fyrirkomulag skyldutrygginga er bæti tjón á húseignum og lausafé af völdum náttúruhamfara“. Þeim var einnig falið að semja frumvarp til laga um slíkar tryggingar. Ásgeir Ólafsson var formaður nefndarinnar. Nefndin samdi frumvarp til laga um Viðlagatryggingu Íslands sem tóku gildi þann 27. maí 1975. Viðlagatrygging Íslands tók við eignum og skuldum Viðlagasjóðs sem settur var á fót þegar eldgosið í Vestmannaeyjum varð og bætti einnig tjón sem varð í snjóflóðinu á Neskaupstað. Viðlagasjóður hætti endanlega starfsemi árið 1978. Tilgangurinn með því að koma á fót sérstakri náttúruhamfaratryggingu var einkum sá, samkvæmt greinargerð nefndarinnar er fyrstu lögin samdi, "að vera fyrirfram viðbúin með fjármagn og reglur hvernig bæta skuli, ef menn verða fyrir eignatjóni af völdum náttúruhamfara, og um leið að tryggt sé, að allir sitji við sama borð í þessu efni“.
-
Stjórnendur
Fyrsti framkvæmdastjóri stofnunarinnar var Ásgeir Ólafsson sem sinnti starfi framkvæmdastjóra meðfram því að vera stjórnarformaður fram til ársins 1985 en hann lét af störfum framkvæmdastjóra á árinu 1986. Þá tók Geir Zoega við framkvæmdastjórn stofnunarinnar fram til ársins 2000, þá Ásgeir Ásgeirsson til ársins 2010 og frá þeim tíma hefur Hulda Ragnheiður Árnadóttir verið forstjóri NTÍ. Stjórnarformenn, aðrir en Ásgeir Ólafsson, hafa verið Einar B. Ingvarsson frá 1985-1991, Guðmundur Þ. B. Ólafsson 1991-1995, Jón Ingi Einarsson 1995-2007, Torfi Áskelsson 2007-2011, Guðrún Erlingsdóttir 2011-2015 og Sigurður Kári Kristjánsson frá árinu 2015.
-
Starfsemi NTÍ
Meginhlutverk NTÍ er að vátryggja húseignir og lausafé á Íslandi gegn náttúruhamförum. Allar húseignir eru vátryggðar en lausafé aðeins ef það er brunatryggt hjá almennu vátryggingafélögunum. Starfsemi stofnunarinnar hefur að mestu verið óbreytt frá upphafi. Almennu vátryggingafélögin sjá um að innheimta iðgjöld fyrir hönd NTÍ samhliða innheimtu á iðgjöldum vegna brunatrygginga. Einungis er tryggt gegn beinu tjóni á hinu vátryggða af völdum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða. Ekki er vátryggt gegn afleiddu tjóni eða tjóni af völdum truflunar á starfsemi í kjölfar náttúruhamfara. Iðgjald er 0,25‰ af vátryggingarfjáhæð sem er jafnhá brunatryggingarfjárhæð á húseignum, innbúi og lausafé. Frá árinu 1982 hafa verið í gildi ákvæði sem skylda eigendur ýmissa mannvirkja sem ekki er venja að brunatryggja, svo sem ýmis orku- og veitumannvirki, brýr og hafnir. Ekki er skylda að vátryggja þessar eignir hjá NTÍ, heldur er eigendum skylt að sjá til þess að slíkar vátryggingar séu fyrir hendi hjá einhverju vátryggingarfélagi. Algengt er að stærstu orkufyrirtækin vátryggi mannvirki sem tengjast orkuframleiðslu, beint hjá erlendum vátryggingarfélögum. Iðgjald vegna slíkra mannvirkja er 0,2‰ af vátryggingarfjárhæð.
NTÍ endurtryggir áhættur vegna stórra vátryggingaatburða á alþjóðlegum vettvangi, en á hverjum tíma eru á milli 20 og 30 erlend endurtryggingafélög aðilar að samningi við NTÍ vegna náttúruhamfara.
Starfsemi NTÍ hefur verið til húsa í Hlíðasmára 14 í Kópavogi frá árinu 2014. Að jafnaði starfa fjórir til fimm starfsmenn í föstu starfi hjá stofnuninni, m.a. í sérhæfðum verkefnum sem tengjast áhættumati vegna náttúruhamfara og þróun og viðhaldi upplýsingakerfa sem þurfa ávallt að vera í stakk búin til að þjóna hlutverki sínu ef til stórra tjónsatburða kemur.
-
Helstu tjónsatburðir í sögu NTÍ
Eftirfarandi eru helstu tjónsatburðir sem átt hafa sér stað eftir að Viðlagatrygging Íslands var stofnuð árið 1975:
- jarðskjálfti við Kópasker, 13. janúar 1976,
- krapaflóð á Patreksfirði 22. janúar 1983,
- sjávarflóð á Akranesi 5. janúar 1984,
- sjávarflóð á Eyrarbakka, Stokkseyri og víðar 9. janúar 1990,
- snjóflóð á Súðavík 16. janúar 1995,
- snjóflóð á Flateyri 26. október 1995,
- jökulhlaup á Skeiðarársandi 4. nóvember 1996,
- jarðskjálftar á Suðurlandi 17. og 21. júní árið 2000,
- jarðskjálfti á Suðurlandi 29. maí 2008,
- eldgos í Eyjafjallajökli 14. apríl 2010 og
- eldgos í Grímsvötnum 21. maí 2011.
- snjóflóð á Flateyri 14. janúar
- aurskriður á Seyðisfirði 15. til 18. desember 2020
Árlega verða að meðaltali sjö atburðir sem falla undir vátryggingaskyldu NTÍ, en oftast valda þeir einungis tjóni á fáeinum eignum í senn, t.d. í vatnsflóðum og aurskriðum.