Húseignir, innbú og lausafé
Allar húseignir á Íslandi eru vátryggðar hjá NTÍ. Ef innbúið þitt eða lausafé er brunatryggt hjá Sjóvá, TM, Verði eða VÍS, er það vátryggt gegn náttúruhamförum hjá NTÍ.
Það er nauðsynlegt að brunatryggja innbú og lausafé til að það fáist bætt hjá NTÍ.
Vátryggingafélögin sjá um innheimtu iðgjalda fyrir NTÍ sem eru 0,025% af vátryggingarfjárhæð, bæði vegna húseigna og innbús eða lausafjár.
Vátryggingafjárhæð fyrir húseignir, innbú og lausafé er hámark vátryggingaverndar hjá NTÍ og er sú sama og brunatryggingarfjárhæð á hverjum tíma.
Eigin áhætta er 2% af hverju tjóni, en þó aldrei lægri en 200.000 kr. vegna innbús og lausafjár og 400.000 kr. vegna húseignar.
-
Í hvaða tilvikum gildir vátryggingin mín hjá NTÍ?
Þegar tjónið stafar af eldgosi, jarðskjálfta, skriðufalli, snjóflóði eða vatnsflóði og tjónið verður á húseign.
Ef þú hefur keypt brunatryggingu á lausafé/innbúi hjá almennu vátryggingafélögunum, Sjóvá, Verði, VÍS eða TM þá er það einnig vátryggt fyrir ofangreindum tjónsatburðum.
-
Ef um er að ræða tjón af völdum snjóþunga sem ekki fæst bættur hjá tryggingarfélaginu mínu, er það þá bætt hjá NTÍ?
Nei, ekki nema það hafi verið snjóflóð sem féll á eignina þína.
-
Bætir NTÍ foktjón þegar vindhraði fer yfir 28,5 m/sek?
Nei, NTÍ bætir aldrei foktjón, en almennu vátryggingafélögin bjóða upp á sérstakar foktryggingar.
-
Hvernig greiði ég iðgjald til NTÍ?
Þitt vátryggingafélag (Sjóvá, TM, VÍS eða Vörður) sér um að innheimta iðgjaldið fyrir NTÍ.
-
Ef ég á margar eignir sem lenda í sama tjónsatburði, greiði ég þá margar eigin áhættur?
Já, vátryggður ber eigin áhættu af heildartjóni húseigna á hverju fasteignanúmeri, óháð fjölda þeirra húseigna sem hann á.
-
Hvernig reiknast eigin áhætta af sameign í fjölbýlishúsi?
Fjöleignarhús skiptast niður í séreignir sem hafa sérstök fasteignanúmer. Hverri séreign fylgir hlutdeild í sameign hússins samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu. Ein eigin áhætta reiknast af hverju fasteignanúmeri hvort sem tjónið er aðeins á séreigninni, aðeins á sameigninni eða bæði á séreign og sameign hússins.
Ef tjón verður t.d. á sameign í tíu íbúða fjöleignarhúsi (tíu fasteignanúmer), þá eru eigendur allra íbúðanna tjónþolar og eru tíu tjónamál stofnuð, hvert með sína eigin áhættu. Ef tjón verður einnig á stökum íbúðum (séreign) ber hver íbúð og hennar hluti í sameign einungis eina eigin áhættu.
-
Er bíllinn minn tryggður í náttúruhamförum?
Þú þarft að hafa samband við þitt tryggingafélag og spyrjast fyrir um það. Kaskótrygging innifelur í sumum tilvikum hluta þeirra atburða sem talist geta til náttúruhamfara. Í þeim tilfellum myndi þitt vátryggingafélag bæta tjónið.
Ef bíllinn þinn er brunatryggður með sérstakri brunatryggingu hjá þínu vátryggingafélagi er hann vátryggður fyrir eldgosum, jarðskjálftum, skriðuföllum, snjóflóðum og vatnsflóðum hjá NTÍ.